Langdrukknir Rússar og sársvangir Íslendingar

11.maí, kl. 23:55
Við erum komnar í lestina þar sem við deilum klefa með tveimur snarskjúkum einstaklingum. 

Fullorðin kona sem er án efa sýkópati er í hinni neðri kojunni. Hún minnir um margt á hjúkkuna í Misery eftir Stephen King en henni stökk ekki bros á vör þegar við Elísa komum skælbrosandi og skellihlægjandi inn í lestina. Okkur finnst líklegast að hún sé húsmóðir úr úthverfum Moskvu og hafi fengið nóg af eiginmanni sínum sem var sífullur alla helgina og jafnvel búinn að vera langdrukkinn undanfarnar vikur og óbærilegur og hún hafi því ákveðið að skella sér í orlof inn í Síberíu. Við hlógum eins og vitleysingar í gott korter á meðan við vorum að koma okkur fyrir og aldrei brosti konan né skipti um svip. Þessi hegðun hennar staðfestir grun okkar um að hún sé sýkópati, enda eitt af grunneinkennum þeirra að sýna hvorki samúð né samgleðni. 

Hinn klefafélagi okkar er maður á fertugsaldri sem heldur án efa að hann og leiðtoginn séu einn og sami maðurinn. Hann er krúnurakaður og var ekki lengi að rífa sig úr að ofan og spókar nú um á öllum fermetranum sem fjóreykið hefur til umráða og hnyklar brjóstvöðvana eins og hann hafi slegist í lið með leiðtoganum og þeir séu að fara að ráða að niðurlögum nokkurra bjarna sem ráðist hafa á lestina. Hann lítur út fyrir að geta drepið menn með þumlinum einum saman og ég er mjög hrædd við að sofa með þeim tveimur í klefa. Í næsta klefa við okkur eru svo indversk hjón sem virðast vera frekar óhress með allt saman: stærð klefans, hitastigið, vatnsleysið og útsýnið.

Það er mjög þungt loft í lestinni og sennilega um 35 gráður inn í klefanum. Viðrekstur samferðamanna gæti kostað okkur lífið. Ég er mjög hrædd um að mín innri súrefnisháða vera muni kafna hérna inni í nótt. Ég rak Elísu í efri kojuna svo ég gæti laumast til að setja rifu á hurðina fram á gang þegar fólk er sofnað og búið að slökkva ljósin. Sömuleiðis get ég þannig tryggt að ef eitthvað komi fyrir komumst við hratt og örugglega út úr klefanum. Nú þegar ég skrifa þetta átta ég mig á að ég sé mögulega með vott af innilokunarkennd sem kannski hefði verið ráðlegt að ræða við sálfræðing áður en ég lagði af stað í 13.000 kílómetra lestarferð. 

12. maí, 11:03
Elísa vakti mig fyrir bráðum 3 klst og bað mig um að drífa okkur á fætur svo við myndum nú ekki missa af stoppinu okkar í Yekaterineburg kl. 9. Við rífum okkur á fætur og sáum að klefafélagarnir okkar voru bæði farin. Í staðinn voru komnir feðgar: pabbinn svarthærður og mjög vatnsgreiddur í bláum plastbuxum og sonurinn Ivan í efri koju. 

Á meðan við biðum kom haugafullur Rússi úr þarnæsta klefa að spjalla við okkur. Ljóshærður, um fimmtugt, í íþróttagalla merktum rússneska ólympíuliðinu, með ístru á stærð við vetrardekk á meðalstærðar Volvo trailer og án efa búinn með heila flösku af vodka og tvo pakka af filterslausu sovéttóbaki. Hann spurði (frekar stoltur af enskunni sinni) hvert við værum að fara og þegar við sögðumst vera að fara til Yekaterineburg svaraði hann ánægður að hann byggi einmitt þar. Við sáum fljótlega í hvað stefndi og fullvissuðum hann um að við ætluðum að gista á hóteli en ekki heima hjá honum. 

30 mín seinna vorum við enn að bíða eftir Yekaterineburg en kipptum okkur ekki mikið upp við að við værum ekki komnar því við værum vissulega ekki í Þýskalandi og því viðbúið að lestin væri kannski smá sein. Haugfulli ólympíufarinn mætti aftur, greinilega nýbúinn að reykja því hann lyktaði sterkar og verr en reyksvæðið á Ölstofunni klukkan 03 á aðfaranótt sunnudags. Hann spurði Elísu hvort „Is a ok? Da?“ og þegar hún svaraði „yes of course“ romsaði hann upp úr sér að hann væri nú frekari þreyttur og hlakkaði til að komast til Yekaterineburg eftir 24 klst. Við Elísa brostum en litum á hvor aðra, svo á pappíranna og sáum okkur til mikilliar skelfingar að enn voru 24 klst eftir í næsta stopp.

Nú voru góð ráð dýr. Við tókum engan mat með í lestina og ekki nema hálfan líter hvor af vatni og einhverja múslímylsnu í poka. Heimsókn í hinn illræmda veitingavagn var það eina í stöðunni fyrir sársvanga Íslendinga.

Veitingavagninn innihélt 10 borð með bekkjum með vínrauðu plastáklæði og glugga með 100% gervisatíngardínur í sama vínrauða lit með gulum körmum. Með handapati pöntuðum við okkur morgunmat: ommilettu og instant kaffi. Kaffið var hið fínasta fínt en ommilettuna hef ég grunaða um að vera steikta upp úr kjúklingafitu og kom henni því ekki auðveldlega niður. Konurnar sem vinna í veitingavagninum eru með skrautlegustu hárgreiðslur, og almennt að vinna með fyndnustu týpur, sem sést hafa þessu megin við Atlantshafið: appelsínugult og fjólublátt hár, skærbláar eða skærgrænar vel skreyttar neglur og mjög mikinn andlitsfarða. Við Elísa erum vissar um að þær hafi ætlað að verða flugfreyjur en fyrir tilstuðlan örlaganna endað í Síberíuhraðlestinni. 

Indversku hjónin í klefanum við hliðina á okkur eru alveg brjáluð. Þegar Elísa bauð þeim góðan daginn í morgun kvartaði frúin samstundis yfir því að ekki væri einu sinni búið að búa um. Þau hafa víst farið í sambærilega ferð um Indland þar sem klefarnir voru miklu betri, alltaf búið um og blóm á borðinu alla morgna. 

Mér finnst allt ógeðslega fyndið og finnst ferðin okkar minna á SATC þáttinn þegar Carrie og Samantha taka lestina til San Fran í staðinn fyrir að fljúga. Nema að við erum í tveggja vikna löngum extended version þætti þar sem allt er á rússnesku, bæði tal og gæðastuðlar. 

Um hádegisbil stoppaði lestin og allir fara niður á brautarpall. Við látum að sjálfsögðu þetta súrefnisstopp ekki framhjá okkur fara, ég ofanda eins og ég hafi aldrei fengið frískt loft áður og Elísa nýtur fyrstu sígarettunnar í tæpan sólahring af áfergju. Íþróttahetjan er nú aðeins frískari en áðan og kemur að máli við okkur og býður okkur að koma í káetuna sína að drekka koníak. Ég benti honum á að klukkan væri ekki nema að verða 13 og að við Elísa værum varla búnar að fá mat í heilan sólahring, koníak gæti farið illa í ólestarvanar konur á fastandi maga. Hann leit skilningssljór á mig og sagði „Cognac all day is okay .. 7 in morning“ Hann var sumsé búinn að vera hauslaus í 5 klst og nóg var eftir af deginum. Ég hugsa að þessi gæi eigi eftir að vera endalaus uppspretta gríns næsta sólahringinn. 
— 
„Hvar er múslíið?“ spyr Elísa 
frekar önug þegar líða tekur að kvöldmat. Við erum að vakna eftir 4 klst blund en við ákváðum að best væri að díla við þennan dag eins og svæsna þynnku – sofa þar til hann væri búinn. Múslíið er eina matarkyns sem við höfum að borða ef við ætlum ekki að beina viðskiptum okkar í veitingavagninn voðalega. Ég myndi segja að aðalmunurinn (og stórhættulegi munurinn) á okkur Elísu sé að Elísa verður mjög svöng mjög hratt og verður þá frekar önug en ég kippi mér ekki mikið upp við svengd og bið eftir mat, er almennt frekar sveimhuguð og lengi að velja mat. Þetta mun hugsanlega koma til með að skapa talsverða streitu í vinasambandinu næstu vikurnar. 
Við erum vissar um að pabbi hans Ívans sé að vinna fyrir leiðtogann. Hann er með tvo síma og iPad sem hann skilur ekki við sig og fer reglulega fram í háleynileg símtöl sem enginn virðist mega heyra. Eina sem vinnur gegn þessari kenningu eru mökkljótu bláu plastbuxurnar sem hann hefur ákveðið að væru bestar í 36 klst lestarferð. Við höfum séð myndum af leiðtoganum bregða fyrir á iPadnum og teikningar af allskyns byggingum. Ivan er mjög duglegur að læra og er án nokkurs vafa lýðræðisleg framtíð Rússlands. Hann gæti líka verið einkasonur  leiðtogans og “pabbinn” verið lífvörður hans.
— 
Lestin stöðvar einhvers staðar, við vitum ekki hvar við erum né hvað klukkan er. Eina sem við vitum er að við erum í Síberíu og að okkur hafa verið gefnar 15 mínútur til að hlaupa í sjoppu. Við raunsturlumst og hlaupum inn í einhverja búllu á lestarstöðinni; sjawarma, bökuð kartafla, núðlupakkar, hafragrautur, gos, Twix og fleira ratar í innkaupapokann. Maður á víst ekki að fara svangur í búðina. Íþróttahetjan brosir til okkar í röðinni í sjoppunni og segist vilja kaupa bjór handa okkur, við höldum ekki og laumumst í burtu. 
Við komum aftur í klefann okkar með þriggja daga birgðir af mat. Við sem eigum ekki nema 15 klst eftir í lestinni. Við munum að minnsta kosti ekki deyja úr hungri eða þorsta þar til við komumst til Yekaterineburg. 

Eftir herlegheitin ákváðum við að kíkja aftur í veitingavagninn í þeirri von um að íþróttahetjan væri löngu sofnaður. Þar fundum við fyrir nokkra langdrukkna Rússa og vélvirkjann sem var kominn vel á leið með sína flösku af sterku. Munurinn á Rússum og Íslendingum er sennilega sá að þeir komast ekki upp með að vera langdrukknir og reyktir án þess að það sjáist á þeim. Rússarnir hins vegar eru allir þrútnar og rósroðaðir í drasl. Við ákváðum að slást í hópinn og vona það besta, getur ekki klikkað. 
Advertisements

Allir litir Moskvu eru pastel

Konan á móti mér er að borða hálfan grillaðan kjúkling, sem hún hitaði alltof lengi í örbylgjuofninum áðan. Ég sit við eldhúsborðið á hostelinu okkar Elísu í Moskvu og brytja banana niður í múslíið mitt. Ég er að fara að borða morgunmat. Ég brosi frekar áreynslulaust til konunnar sem hefur ráðist af frekar mikilli áfergju á kjúklinginn sinn. Hún er eins og rússnesk hríðskotabyssa þegar hún spýtir beinum sem slysast upp í hana út úr sér á diskinn svo glymur í.

Hún er með risastóra könnu af instantkaffi og hún er nú þegar búin að setja 3 teskeiðar af sykri út í kaffið sem hún sötrar með kjúllanum. Mér hefur aldrei þótt lyktin af kjúkling góð og kúgast frekar auðveldlega af allskonar matarlykt og borðsiðum, lyktin af örbylgjuhituðum kjúkling fyrir kl. 10 að morgni til fellur ekki í góðan jarðveg. 

Elísa brann frekar illa fyrsta daginn okkar í Moskvu og mér finnst það vera áfellisdómur yfir mér, verandi sólardýrkandinn í þessu tveggja kvenna teymi. 

Moskva er eins og sviðsmynd úr einhverri bíómynd eða einhvers konar  borgarútgáfu af Sylvania-heimi. Byggingarnar eru í öllum mögulegum pastellitum, með fallegum rósettum og gluggakörmum. Gult, bleikt, blátt, fjólublátt og mintugrænt virðist vera aðalþema í litavali borgarinnar.

  

Það kom í ljós að við völdum verstu helgi í sögu Rússlands til að heimsækja Moskvu en hér er verið að fagna 70 árum frá sigri seinni heimstyrjaldarinnar og hálft Rússland er komið til Moskvu að halda upp á tímamótin. Pútin sýndi Vesturlöndunum herafla sinn í einhverri stærstu skrúðgöngu sem haldin hefur verið síðan einmitt rétt um það leyti sem seinni heimstyrjöldin var í startholunum og staðfesti þar með þá trú Rússa að þeir hafi einir og óstuddir staðið á bakvið sigurinn. 

Allir eru í Moskvu, líka þessi tíbetski munkur sem er að taka selfie á leiðinni inn í Kremlin. Samfélagsmiðlarnir sameina fólk, það er bara þannig.

  

Í metróinu óma Sovétskir söngvar út stórum stálhátölurum. Ljósin eru merkt með hamar og sigð, svo þeir sem eigi leið um muni hvapan ljósið sem lýsir þeim sé komið. Mér líður eins og ég sé komin heim í hjarta sósíalismans en Elísa er viss um að tónlistin sé til þess að heilaþvo almenna borgara til þess að elska Pútín, eða leiðtogann eins og við köllum hann í daglegu tali, skilyrðislaust. 
  

 


Konan á móti mér er búin með kjúklinginn og er núna farin að hella í sig dísætu kaffinu og hakka í sig ískex. Hún er í bol merktri yoga-friðarstöð og ég velti fyrir mér hvort hún hafi tileinkað sér þennan matseðil í yogabúðum. Það er ekki hægt að búa þessa týpu til.

Mig langar að mjög flytja til Moskvu og hugsa að borgin tróni í augnablikinu efst á ‘borgir sem mig langar að búa í’-listanum. Sem skapar ákveðna togstreitu við París. Elísa er mögulega komin með nóg af draumórakenndum hugmyndum mínum um hvað ég gæti gert ef ég byggi hér. Í kvöld leggjum við af stað með lestinni, fyrsta stopp er iðnaðarborgin Yekaterineburg sem verður án efa afskaplega spennandi (lesist með kaldhæðnum tóni). 

Okkur finnst við tvær vera fyndnustu verur jarðar og erum í stanslausu hláturskasti. Þannig erum við ýmist frussandi kóki eða pissandi í okkur af hlátri, samferðafólki okkar til mikillar ánægju.
  

Síðustu bænaköll moskunnar

Ég er í khakigrænum gallabuxum, hvítum aðsniðnum stuttermabol með brúnt fléttað leðurbelti og með gleraugun mín sem ég er búin að setja í gyllta keðju svo ég týni þeim ekki í fimmta og hugsanlega síðasta skiptið. Mér líður alltaf eins og kvenkynsútgáfu af Harrison Ford í hlutverki Indíana Jones í þessari múnderingu, tilbúin að takast á við heiminn, læst vera miklu harðari en ég í raun og veru er. Merkilegt hvernig föt og ímyndunarafl geta haft áhrif á sjálfstraust og viðmót gagnvart öðrum. Ég er að bíða eftir leigubíl og læst ekki taka eftir hóp manna sem horfa á mig og hnippa í hvern annan, ég veit alveg hvað þeir eru að segja – ég er búin að heyra alla frasana undanfarinn mánuð.

Ég lenti í Casablanca fyrir rúmum mánuði síðan. Þegar ég kom út af flugvellinum var himininn bleikur og loftið hlýtt. Ég gekk að manni sem hélt á skilti með nafninu mínu og hann fylgdi mér að leigubílnum. Á leiðinni inn í borgina keyrðum við framhjá börnum að gæta geita, mönnum að brenna tré, lyktin var eins og í Þingholtunum á vorkvöldi þegar grillmanían nær hámarki. Nema að hér voru raunverulegar 20 gráður. Bílstjórinn var með stillt á einhverja útvarpsrás með frönsku- og arabískumælandi útvarpskynni sem hljómaði eins og hann væri Andri Freyr Marokkó, þúaði viðmælendur og hló hátt.

Miðbærinn í Casa var algjört mayhem og í miðjum umferðahnútnum við Kenzi turnana byrjuðu bænaköll moskunnar að hljóma inn í kvöldið, sem mér fundust vera það mest framandi sem ég hafði nokkru sinni upplifað. Örfáum mínútum seinna settu kynnirinn ofurhressi svo Stay with me með Sam Smith í spilun í útvarpinu og ég gat ekki annað en hlegið að því hvað heimurinn er múltíkúlti en poppaður á sama tíma.

Núna þekki ég muninn á bænaköllunum, á hvaða tíma dags bænastundirnar eru, hvað þau heita og standa fyrir, fimm sinnum á sólahring, og öðruvísi köll á föstudögum. Mér finnst bænaköllin samt enn framandi, róandi og á eftir að sakna þeirra.

Ég get ekki að því gert að hugsa til Franska þegar ég ferðast og er núorðið alltaf viðbúin því að næst þegar ég líti upp, muni hann standa fyrir framan mig – skælbrosandi í jakkafötum á leið í einhver háalvarleg diplómatísk erindi fyrir franska ríkið. Ég sendi honum sms þegar ég millilenti á flugvellinum í París á leið til Casa og athugaði hvort hann væri í nágrenninu. Hann svaraði um hæl og sagðist hafa hugsað eins til mín vikunni áður þegar hann var á ferð í gegnum Kaupmannahöfn, alltaf að bíða eftir að rekast á mig – fyrir tilviljun á ótrúlegustu áfangastöðum.

Ég hef aldrei verið svona lengi ein á ferðalagi og síðasta mánuðinn er ég búin að æfa mig mjög mikið í að fara varlega. Ég er ekkert sérlega góð í því en ég er öll að koma til. Ég gekk reyndar á pálmatré af unglingsstærð um daginn, því ég var upptekin við að horfa á eitthvað fallegt og njóta augnabliksins. Ég sendi mömmu háalvarleg skilaboð á Facebook (þegar ég var búin að draga nálina úr augnkróknum) um að nú væri komið að því, ég væri örugglega að fara að missa sjónina. Í 3 daga neitaði ég að taka niður sólgleraugun og lokaði auganu við minnstu vindhviðu af ótta við að fá eitthvað í augað. Serbneska konan í eyðimerkurferðinni sem ég var í síðustu 3 daga reyndist vera heimilislæknir og með þýðingaraðstoð frá manninum hennar náði hún að fullvissa mig um að ég myndi sennilega lifa þetta af.

Marokkó er gjörólíkt öllu sem ég hef áður séð; ég ref aldrei séð svona mikla fátækt en á sama tíma hef ég aldrei séð svona mikið ríkidæmi. Feðraveldið er á hverju einasta horni, öll kaffihús eru full af körlum, karlar vinna nánast öll störf og hér er þykir það virðingarvert að kona geti unnið heima.

Ég sit í leigubíl í umferðarteppu á leið upp á flugvöllinn í Marrakech þegar síðdegisblænaköllinn byrja. Al’-asr. Þau byrja þegar sólin er byrjuð að setjast, þ.e. á þeim tímapunkti þegar skuggi hluts verður jafnlangur og svo lengri en raunstærð hans.

Það eru 37 gráður í Marrakech og ég er að kafna, Indíana Jones gallabuxurnar voru sennilega mistök. Mér líður samt eins og George Lucas og Spielberg væru stoltir af mér; eyðimörkin, sjórinn, úlfaldar, næturlestir og allskonar ævintýri hafa skilað mér einhvers konar heilögum sannleika í það minnsta.

Leigubílstjórinn reykir út um gluggann á bílnum og við erum ekki komin lengra en að Place Jamaa el-Fna, þar sem grilllyktin byrjar að fylla loftið og sturlun komandi kvölds er í startholunum.

Mér finnst skrítið að kveðja Morokkó en hlakka samt til að komast í smá frið frá áreitinu og sólinni.